Thursday, January 9, 2014

Dagur 9

Ég dæsti og gafst upp. Kannski þetta yrði skárra eftir einn kaffibolla. Ég stóð upp og skreið yfir skrifborðið og opnaði hurðina. Þegar ég var kominn út á ganginn heyrði ég símann hringja inni á skrifstofu. Einhvern veginn var ég viss um að ég væri að gera mistök þegar ég snérist á hæli og gekk til baka inn á skrifstofuna. Síminn hringdi enn hangandi á veggnum. Ég horfði á hann og hann hringdi enn. "Umferðarbrotadeild, Hallmar Hallmars" sagði ég inn í tólið. Ekkert svar. "Halló", sagði ég "Hallmar Hallmars Umferðabrotadeild". Enn barst ekkert svar en ég heyrði að greinilega var andað hinu megin á línunni. "Halló, er einhver á hinum endanum. Þér verðið að segja eitthvað annars neyðist ég til að leggja á". Enn var bara andað í tólið. "Ég verða að vara þig við, ég legg á núna ef þér segið ekki eitthvað". Skyndilega var hóstað hryglukenndum hósta inn í eyrað á mér og síðan rödd gamals manns sem sagði "Góðan dag ég ætlaði að panta hjá þér". "Fyrirgefðu hvert ætlaðir þú að hringja?" Enn á ný hóstaðpi röddin og sagði síðan "Er þetta ekki á Dominos? Ég ætlaði að panta hjá ykkur pizzu". Ég hristi höfuðið og svaraði "Nei, þetta er ekki hjá Dominos, þér eruð að tala við Umferðabrotadeild Lögreglunnar í Reykjavík og ég heiti Hallmar Hallmars. Ég get því miður ekki tekið við flatbökupöntun en ef þér viljið tilkynna um umferðarlagabrot þá vill ég glaður hjálpa þér". Ég brosti með sjálfum mér. Sálfræðingurinn á uppstökksnámskeiðinu hefði orðið stoltur af mér. " Nei ég ætlaði að panta pizzu en ég virðist eitthvað hafa valið rangt á símanum mínum. Ég bið þig afsökunar væni" sagði röddin og lagði á. Ég horfði á tólið, hristi hausinn og lagði það aftur á símann sem hékk á veggnum. Ég var ekki kominn nema fáein skref þegar síminn hringdi aftur. Ég hikaði augnablik á göngunni en ákvað síðan að mér þætti meira varið í að fá mér kaffið heldur en að spjalla um rangt slegið inn númer í símann.

Orð dagsins: Menntaslönga

No comments:

Post a Comment